6 klst. svínabógur

6 klst. grísabógur.

Eitt af mörgum áhugamálum þessa heimilis er að safna matreiðslubókum og eigum við orðið ansi stórt og gott safn af bókum. Okkur finnst alltaf jafn gaman að bæta nýjum bókum í safnið. Við keyptum okkur bók sem Nóatún gaf út til styrktar Fjölsmiðjunni og heitir bókin því einfalda nafni „Veisla“ það eru margar góðar uppskriftir í bókinni þ.a.m. uppskrift af 6 klst. grísabógi. Ég er þeirrar skoðunar að þetta er ein besta uppskrift af grísabóg sem við höfum eldað. Bragðið er dásamlegt. Við höfum eldað þessa uppskrift nokkrum sinnum á síðustu árum og slær hún alltaf jafn vel í gegn.

Uppskrift fyrir 8 manns.

Hráfefni
3 kg grísabógur
2 msk söxuð fersk salvía (einnig hægt að nota þurrkaða)
2 msk ferskt saxað rósmarín
10 hvítlauksgeirar
1 msk fennelfræ
1 ½ msk sjávarsalt
1 msk nýmalaður pipar
1 msk hvítvín (matreiðsluvín eða hvítvínsedik)
1 msk olía

6 klst. svínabógur
Skera vel í puruna.

Hitið ofninn í 130 gráður. Setjið kryddin og hvítlaukinn í matvinnsluvél og maukið vel. Bætið hvítvíni og olíu saman við og hrærið varlega. Skerið skurði á pöruna á bógnum, þannig að skurðurinn nái alveg niður að kjöti. Nuddið kryddmaukinu vel á allt kjötið og ofan í raufarnar. Setjið lok á pottinn og inn í ofn í 6 klst. Takið kjötið út og látið það standa í 15 mín. Áður en þið skerið í kjötið. Ef þið viljið fá pöruna stökka, takið þá lokið af pottinum og setjið ofninn á grill síðasta korterið.

Meðlætið hjá mér var ferskt salat, rjómasveppasósa og sæt kartöflumús

Rjóma sveppasósa
1 askja sveppir
1 peli rjómi
Salt, pipar, grænmetisteningur og smjör

Skerið sveppina niður, bræðið smjör í potti og steikið sveppina á háum hita, kryddið með salti og pipar. Þegar sveppirnir eru orðnir brúnir á lit, lækkið hitann og setjið rjómann út í ásamt ½ grænmetistening, bætið hinum helmingnum við ef þurfa þykir. Smá rifsberjagel bætir yfirleitt alltaf bragð á sósum. Takið smá soð úr pottinum til að bragðbæta sósuna með. Munið að hafa hitann lágan og hræra reglulega í sósunni. Setjið smá sósulit út í í lokin.

Hvítlauks sætkartöflumús með salti, pipar og múskati.
Aðferð: Skrælið 2-3 kartöflur og sjóðið. Reyndar fer magnið að sjálfsögðu eftir fjölda matargesta. Þegar kartöflurnar eru soðnar, eru þær maukaðar í potti eftir að vatninu hefur hellt af. Setjið út í smjörklípu, 2-3 pressuð hvítlauksrif og kryddið með salti, pipar og rifnu múskati.

Sætkartöflustappa

Verði ykkur að góðu.

Heimild:  www.heimilismatur.com

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *