Bláberjamuffins
Ég elska þennan árstíma þegar haustið er rétt handan við hornið, síðust sólardagarnir og gróðurinn er
næstum byrjaður að fá á sig fallegu haustlitina.
Þetta er árstíminn þegar allt er að detta í reglur og rútínu eftir sumarið.
Einnig er þetta tíminn þegar berin eru tilbúin og sveppirnir skjótast upp út um allt.
Ég las um daginn að það væri útlit fyrir slæma berjatíð. Við náðum samt að fylla nokkra dúnka af bláberjum hérna á Suðausturlandinu. Það verður dásamlegt að smjatta á berjunum í vetur.
Mér finnast berin alltaf bragðast betur þegar ég hef haft fyrir því að tína og hreinsa þau sjálf.
Því var tilvalið að skella í afar ljúffengar bláberjamuffins.
Bláberjamuffins með sítrónuberki.
115 gr smjör (við stofuhita)
2 dl sykur
2 egg
1-1 1/2 dl mjólk
1 tsk vanilla
1 msk lyftiduft
5 dl hveiti
5 dl bláber
Hýðið af 1 sítrónu
Byrjið á að hræra saman smjöri og sykri. Bætið eggjunum út í, einu í einu. Best er að hafa eggin ávallt við stofuhita. Bætið síðan þurrefnunum saman við.
Að lokum er mjólkinni og vanilludropunum blandað út í. Setjið bláberin út í og blandið varlega saman með sleif.
Setjið í muffinsform, mér finnst best að nota ísskeið eða litla ausu.
Þetta eru ca. 12-15 kökur. Það fer reyndar eftir því hvað stór form eru notuð og hversu mikið er sett í formin. Ég notaði hefðbundnu stærðina.
Bakið við 200 gráður í cirka 20-30 mín.
Njótið vel og góða berjatínnslu.
Brettið á myndinni er Íslenzka Bændabrettið frá www.bifurkolla.com