Grafin gæsabringa
Mér finnst allskonar villibráð einstaklega góð, og ég er svo heppin að eiga mann sem fer á veiðar. Við höfum prófað að elda gæs á marga vegu. Einnig finnst okkur rosalega gott að fá grafið og reykt villibráða kjöt. Ég er svo heppin að eiga vinkonu sem er mikill gurmé kokkur og fékk ég uppskriftina hjá Dagnýju minni, af þessari frábæru gröfnu gæs. Ég hef nokkrum sinnum gert þessa uppskrift og prófaði ég núna að gera tvær tegundir af sósum með gæsinni, ég verð að játa af balsamic chutney sósan hafði vinninginn.
Grafin gæs
Hráefni
2 gæsabringur
Gróft salt
1 msk sinnepsfræ
1 msk basilica ( Þurrkað )
½ msk oregano ( Þurrkað )
1 msk timian ( Þurrkað )
1 msk rosmarin ( Þurrkað )
½ msk salt
1 msk sykur
1 msk dillfræ
1 msk rósapipar ( mulinn )
Gæsabringa lögð í gróft salt í 1-1 ½ klst
Svartfugl í ca ½ klst
Ég byrja að skoða bringurnar, snyrti það sem hægt er að taka í burtu og að sjálfsögðu þarf að fjarlægja högl ef þau eru í bringunni. Kjötið er því næst hulið vel með grófu salti og geymt inni í ísskáp í ca 1-1 ½ klst. Skolið saltið vel af og þerrið kjötið. Við þetta skreppur kjötið vel saman, í raun er verið að þurrka kjötið. Blandið kryddblöndunni saman í skál eða á disk og veltið bringunum upp úr blöndunni. Pakkið síðan er bringu vel inn í plast og geymið í 1-3 daga í ísskáp.
Best er að skafa kryddið vel af bringunum áður en þær eru sneiddar niður. Ég sker bringurnar niður í þunnar sneiðar og hef góðann fláa á per sneið. Það er mjög sniðugt að raða sneiðunum á bökunarpappír og setja því næst matarfilmu yfir sneiðarnar. Takið svo kökukefli og fletjið sneiðarnar út. Sneiðarnar verða fallegri fyrir vikið. Þær verða ekkert ósvipaðar carpazzio við það.
Með þessu er nauðsynlegt að hafa góðar sósur. Ég gerði annarsvegar piparrótarsósu og balsamic chutney sósu, sem mér fannst hafa vinninginn.
Balsamic chutney sósa
½ dl Olía
2 msk balsamic edik
1 tsk rifsberjahlaup
1 tsk bláberjahlaup ( eða rifsberja)
1 poki furuhnetur ( ristaðar) eða cashew hnetur
½ rauðlaukur smátt saxaður
Smá salt og pipar
Reyndar verð ég að játa að ég hreinlega fékk mig ekki til þess að kaupa 100 g af furuhnetum á næstum 600 kr. Því notaði ég cashew hnetur sem ég ristaði og grófsaxaði niður. Þær voru ekki síðri í sósuna.
Piparrótarsósa
1 dós sýrður rjómi
3 msk majónes
1 pakki piparrótarmauk, rauður pakki sem er yfirleitt hjá kryddunum í verslunum.
1 msk sítrónusafi
1 msk hunang
1 tsk salt
Setjið hráefnið saman í skál og hrærið saman. Mér finnst betra að setja piparrótarmaukið smátt og smátt saman við. Smakkið þetta til og notið eins og ykkur finnst koma best út. Annars á þessi sósa samleið með ansi mörgum mat. Geymist einnig vel í kæli eða í a.m.k. vikutíma.
Hægt að nota ristað baquette, góð brauð eða eitthvað gott kex með þessu. Einnig er líka hægt að vera bara með kjötið og sósurnar.
Njótið vel og lengi
Heimild: www.heimilismatur.com